news

Anna Jóna ráðin skólastjóri Tröllaborga

03. 11. 2021

Tekið af vef Akureyrarbæjar:
„Anna Jóna Guðmundsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Tröllaborga frá og með 1. nóvember 2021. Alls sóttu fjórir
um stöðuna. Anna Jóna hefur 18 ára reynslu af stjórnun í leikskólum, þar af 14 ár sem leikskólastjóri. Lengst var hún skólastjóri í Ársölum í Skagafirði þar sem hún kom að bæði uppbyggingu á öflugu skólastarfi og innleiðingu margra umbótaverkefna. Hún lauk leikskólakennaraprófi frá Kennaraháskólanum í Tromsö árið 1987 og meistaraprófi frá Háskólanum á Akureyri árið 2012 þar sem hún fjallaði um menntun og tónlist í lokaverkefni sínu.

Heillandi heimur og stöðug framþróun

Anna Jóna segir að sér lítist vel á nýja starfið. „Fyrir mér er leikskólinn heillandi heimur og þar á sér stað stöðug framþróun í skólastarfinu. Ég hlakka til komandi tíma og það má gera alla hluti spennandi í leikskólastarfi því allt er svo lifandi og skemmtilegt,“ segir hún og bætir við að það séu forréttindi að vera innan um börn. „Kenna þeim og skipuleggja skólastarf með þeim og fyrir þau. Ennfremur að eiga gott og gefandi samstarf við foreldra og samstarfsfólk,“ segir Anna Jóna.

En hvað er framundan í Tröllaborgum? „Næst á dagská hjá okkur er dagur íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Þá söfnumst við öll saman og syngjum lög og texta eftir íslenska höfunda. Þar sem ég er mikið fyrir tónlist, gutla á gítar auk þess sem ég sem lög og texta mun ég eflaust setja minn svip á skólann með því.

Lífsleikni í hávegum höfð

Hér í Tröllaborgum er ákaflega gott að vera og hér er frábær starfsmannahópur enda er lífsleikni hér í hávegum höfð eða eins og segir í skólasöngnum okkar:

Í Tröllaborgum gaman er
því hér er gott að vera.
Lífsglöð börnin leika sér
og líka nóg að gera."

Með lífsleikninni lærum við
að leika betur saman.
:,:Vinum sýnum virðingu
þá er víst meira gaman:,:“

Við óskum Önnu Jónu, öðru starfsfólki og nemendum Tröllaborga góðs gengis
og skemmtunar á komandi misserum".

© 2016 - 2022 Karellen