Foreldrafélag Tröllaborga

Foreldrafélagið var stofnað 11. janúar 2005. Markmið þess og hlutverk er að efla tengsl foreldra og
starfsfólks, auka þátttöku foreldra í starfi leikskólans og tryggja velferð barnanna sem best. Félagið
stendur fyrir fyrirlestrum, ýmsum uppákomum og ferðum. Einnig getur foreldrafélagið styrkt leikskólann
til kaupa á ýmsum kennslugögnum og leikföngum.

Kæru foreldrar.

Fyrir hönd foreldrafélagsins viljum við minna á greiðslur í félagið okkar. Foreldrafélagið er að vinna að ýmsu skemmtilegu fyrir börnin, eins og jólagjöf, jólaballi, vorhátíð, kaupa leiksýningar og mörgu öðru. Ef greiðslur koma ekki í foreldrafélagið er ekki hægt að framkvæma þessa hluti og þykir okkur það mjög miður. Við viljum benda fólki á að það er ekkert mál að skipta greiðslum, það er miklu betra að fá eitthvað inn en ekki neitt. Foreldrafélagið er nú þegar búið að ráðstafa hluta af þessum peningum, eins og venja er í upphafi skólaárs. Eins og allt í dag þá kostar þetta peninga og það er ekki sanngjarnt að aðeins hluti foreldra séu að greiða fyrir uppákomur, en öll börnin njóta góðs af og ekki viljum við þurfa að biðja starfsfólk um að neita þeim börnum sem ekki hefur verið greitt fyrir um að vera með í þeim atburðum sem eru í boði foreldrafélagsins í vetur.

Við foreldrar erum öll mjög mikilvægur hlekkur í foreldrafélagi leikskólans og með okkar framlagi höfum við getað lagt okkar af mörkum til að gleðja börnin, það erum við sem gerum þetta mögulegt.

Gjaldið í foreldrafélagið er kr: 5000. Þeir sem eru með tvö eða fleiri börn í skólanum greiða kr: 8000.

Reikningsnúmerið félagsins er: 0565-14-605859
Kennitala félagsins er: 510405-0210

Með fyrirfram þökk til ykkar allra
Stjórn foreldrafélags Tröllaborga


Starfsreglur foreldrafélagsins

1.gr.
Félagið heitir Foreldrafélag Tröllaborga

2.gr.
Heimili og varnarþing er að Tröllagili 29, 603 Akureyri

3.gr.
Tilgangur félagsins er að stuðla að velferð barna og starfsfólks í
Tröllaborgum og styrkjasamskipti foreldra/forráðamanna barnanna og
starfsfólks er þar starfar.

4.gr.
Öllum félagsmönnum er frjálst að koma með tillögur til stjórnar um fræðslufundi
eða upplýsingar er varða hina ýmsu þroskaþætti barna.

5.gr.
Stofnfélagar eru foreldrar og starfsfólk í Tröllaborgum.

6.gr.
Allir foreldrar /forráðamenn barna í leikskólanum eru félagar í foreldrafélaginu.

7.gr.
Stjórn félagsins skipa 5-8 fulltrúar foreldra/forráðamanna, þar af er formaður
og 4 meðstjórnendur. Stjórnarmenn eru kosnir til 2 ára í senn en formaður á árlegum
aðalfundi. Formaður boðar stjórnarmenn á fund þegar þurfa þykir, annast daglega
umsjón félagsins og hefur firmaritun félagsins í sínum höndum.

8.gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Aðalfund félagsins skal halda að hausti ár hvert,
stjórnin gerir upp árangur liðins árs, boða skal fundinn með viku fyrirvara.
Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi. Ef 2 eða fleiri félagsmenn óska eftir
fundi er stjórninni skylt að boða til fundar. Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi.

9.gr.
Gjöld félagsins, kr. 5000.- skulu innheimt einu sinni á ári í október og skal upphæðin
ákveðin á aðalfundi ár hvert.

10.gr.
Rekstrarafgangi/hagnaði félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins og til fræðslu
og skemmtunar fyrir börn og foreldra/forráðamenn.

11.gr.
Ákvörðun um slit félagsins verður tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta og renna eignir
þess til leikskólans Tröllaborga.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins og öðlast gildi 11. janúar 2005

© 2016 - 2023 Karellen