Sýn Tröllaborga

Sýn leikskólans er að vinna með og samþætta „hug, hjarta og hönd”, í allri starfsemi skólans. Það er, að jafnvægi verði á milli þekkingar, tilfinninga og framkvæmdar í öllu starfi. Sýn leikskólans byggir á þeirri trú að með því að efla og styrkja hið góða í hverjum einstaklingi skapist góður grunnur fyrir leik og nám barna. Hvert barn byggir síðan þar ofan á, út frá eigin forsendum og getu. Til að ná þessu fram er stefnumótun leikskólans unnin eftir hugmyndafræði lífsleikninnar. Áhersla er lögð á að vinna með virðingu, sjálfsstjórn og ábyrgðarkennd einstaklinga gagnvart sjálfum sér og öðrum svo þeir finni til samkenndar og sýni tillitssemi.

Læsi

Læsi í víðum skilningi er samþætt öllu starfi í Tröllaborgum. Í gegnum lífsleiknina læra börnin tilfinningalæsi sem stuðlar að góðri sjálfsmynd og sjálfsöryggi. Í dygðavinnu læra börnin jákvæð samskipti sín á milli, auka orðaforða sinn og dýpka málskilning. Lögð er áhersla á að umhverfi barnanna ýti undir læsi m.a. með myndrænu dagskipulagi og merkingum sem eru þá sett upp í lesátt. Í daglegu starfi er unnið með þulur,
rím, sögur, leiki og stafi. Í Tröllaborgum er unnið með TRAS, skráningu á málþroska barna og Hljóm-2,
athugun á hljóð og málvitund barna.

Lífsleikni í leikskóla

Hugmyndafræði lífsleikninnar byggir á kenningum sem snúa að mannrækt, siðferðilegu gildismati og
þeirri trú að efla og styrkja hið góða í hverjum einstaklingi, bæði börnum og fullorðnum. Unnið er með tólf dygðir sem námsleiðir til að kenna siðferði s.s. ábyrgð, samkennd, virðingu og þolinmæði. Dygðirnar stuðla
að sjálfsstjórn í gegnum leik og nám þannig að börnin skilji þær og noti í daglegu starfi. Í Tröllaborgum er lífsleiknin rauður þráður í gegnum allt skólastarfið og þegar börnin ná tökum á henni skilar hún sér inn á heimilin og út í samfélagið.

Jóga

Jóga skapar börnum tækifæri til að ná betri slökun og ró í leik og námi sem er mikilvægt í því hraða samfélagi sem við lifum í. Jóga með börnum fellur því afar vel að lífsleiknistarfinu þar sem unnið er með umhyggju, vellíðan, ró, samkennd og hlýju. Í Tröllaborgum er jóga námsleið til að ná fram markmiðum í lífsleikni.

Jafnrétti

Samkvæmt aðalnámskrá leikskólanna á skólastarf að fylgja sex grunnþáttum menntunar, það eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Meginmarkmið grunnþáttanna er að skapa samfellu í skólastarfi sem undirbýr nemendur fyrir áframhaldandi þátttöku í samfélaginu. Tröllaborgir hafa bæði mótað sér læsisstefnu sem og jafnréttisáætlun. Hér má lesa læsisstefnuna og hér má lesa jafnréttisáætlunina.

© 2016 - 2022 Karellen