Sérkennslustefna Tröllaborga
Tröllaborgir styðst við hugmyndafræðina um námsaðlögun og snemmtæka íhlutun. Lögð er áhersla á að börnin einangrist ekki heldur aðlagist vel barnahópnum. Að þau njóti eðlilegra félagslegra tengsla og hafi jöfn tækifæri til að ná árangri í leik og námi. Í Tröllaborgum er lögð áhersla á samvinnu við foreldra strax frá upphafi. Börn hafa mismunandi getu, reynslu og þroska. Þau hafa þörf fyrir samneyti við önnur börn og tekið er tillit til þarfa hvers barns svo það fái notið sín í hópi annarra barna á eigin forsendum. Grunnþarfir barna eru hinar sömu, en þau eru ekki eins og hafa hvert um sig sérstakar þarfir.

Námsaðlögun

Námsaðlögun vísar til þess að fjölbreyttum þörfum barna er mætt í félagi við önnur börn. Að öll börn hafi sem jöfnust tækifæri til að ná árangri í þroska og námi án þess að vera sett í sér hópa eftir þekkingu, færni, skilningi eða getu. Hvert einasta barn býr yfir styrkleikum sem geta verið breytilegir frá einum tíma til annars. Til að geta uppfyllt þarfir barna og skapað leik- og námsaðstæður sem hentar þeim þarf skólinn að þekkja og geta metið námsaðstæður hvers barns.

Erfiðleikar barns í leik og námi geta átt rætur að rekja til þeirra aðstæðna sem það býr við, bæði heima sem og í skólanum, frekar en takmarkana barnsins sjálfs. Það er því veigamikið hlutverk starfsmanna að stuðla að tækifærum í leik- og námsumhverfi hvers barns og gæta þess enn fremur að það verði ekki hamlandi eða skapi erfiðleika. Bilið milli þroska og færni barns og krafna skólans má aldrei verða of breitt fyrir barnið. Það þarf að eiga möguleika á að brúa bilið og upplifa árangur, hvert og eitt á sínum hraða og eftir þeim leiðum sem best hentar hverjum og einum (Rúnar Sigþórsson ofl., 1999, bls 175-189, Aukin gæði náms, skólaþróun í þágu nemenda).

Snemmtæk íhlutun

Snemmtæk íhlutun (early intervention) er þjónusta, þjálfun eða kennsla sem á sér stað snemma. Íhlutun beinist að barni og fjölskyldu og á sér stað í daglegu lífi hvers barns. Þverfagleg nálgun þar sem samvinna er á milli stofnana. Gerðar eru einstaklingsnámskrár og unnið út frá þeim (Jóna G. Ingólfsdóttir 2008, bls 134-139, Þroskahömlun barna).

Með snemmtækri íhlutun er leitast við að hafa áhrif á þroskaframvindu barns með frávik í þroska með markvissum hætti eins snemma og hægt er. Snemmtæk íhlutun vísar frá fæðingu til 6 ára aldurs og tekur mið af góðri samvinnu og markvissri vinnu eins snemma og hægt er (Tryggvi Sigurðsson 2001, bls. 39-44, Snemmtæk íhlutun: markmið og leiðir).

Mat á þörfum barna

Til að uppfylla þarfir barna og skapa leik- og námsaðstæður sem henta þurfa kennarar að þekkja
og geta metið námsaðstæður hvers barns.

Vinnuferli

Í Tröllaborgum er lögð áhersla á gott foreldrasamstarf og að foreldrar komi að ferlinu frá upphafi.
Ef foreldrar eða kennarar hafa áhyggjur af þroskaferli barnsins fer ákveðið vinnuferli af stað.

Fyrsta skrefið er ávallt að tala við foreldra/forráðamenn barnsins. Skoða hvernig gengur heima og í leikskólanum og ræða leiðir til úrbóta. Gagnkvæm virðing er höfð að leiðarljósi þar sem opin samskipti eru mikilvæg.

Sérkennslustjóri

Sérkennslustjóri í Tröllaborgum er Hrefna Bára Guðmundsdóttir leikskólasérkennari,
hrefnabara@akmennt.is. sérkennslustjóri er ekki með fasta viðtalstíma en öllum foreldrum leikskólans er velkomið að hafa samband og fá tíma eftir samkomulagi.
Starfssvið: Starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, lögum um málefni fatlaðra, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla og stefnu viðkomandi sveitarfélags.
Fræðslusvið

Ráðgjöf vegna einstakra barna fer fram frá fræðslusviði Akureyrarbæjar. Leikskólaráðgjafi vegna sérkennslubarna annast faglega ráðgjöf til leikskólastjóra og annarra starfsmanna leikskóla vegna barna sem þurfa á sérkennslu að halda.

Sérfræðiþjónusta í leik- og grunnskólum

Fræðslusvið sinnir sérfræðiþjónustu við grunn- og leikskóla að því er varðar málefni einstakra nemenda. Skólarnir vísa málum nemenda til deildarinnar með samþykki foreldra á sérstökum tilvísunarblöðum. Einnig geta foreldrar leitað beint eftir aðstoð vegna barna sinna.

© 2016 - 2024 Karellen